Umræðan um boð og bönn ÁTVR undanfarið hefur farið fram hjá
fáum. Nú er gengið harðar fram en áður í að útiloka ýmsar tegundir áfengis úr
hillum verslana ÁTVR. Þetta hefur á tíðum vakið svo mikla undrun að sjálfur
formaður efnahags- og skattanefndar, Helgi Hjörvar, sem hafði umsjón með nýju
lagafrumvarpi fyrir ÁTVR, sagði orðrétt “Það er langt seilst í rökstuðningi
fyrir þessari ákvörðun ÁTVR”. Þar er Helgi að vitna í bann við sölu á
rauðvíninu Motörhead Shiraz. Í sömu grein segir aðstoðarforstjóri ÁTVR, Sigrún
Ósk Sigurðardóttir, að núverandi kerfi sé kannski ekki svo heppilegt þegar
ákveða á hvaða vín hlýtur náð fyrir augum vöruvalsnefndar ÁTVR.
Hvort sem það er tilviljun sem
veldur því að einmitt núna þessi misserin er verið að neita fjölmörgum tegundum
skal ósagt látið en meðal þess sem særir blygðunarkennd nefndarinnar er t.d.
Black Death bjór, þar er ástæðan letur utan á dósinni sem er á þessa leið
“Drink in Peace” sem er bannað. Annar drykkur er Tempt Cider sem er danskt
eplavín, þar eru umbúðirnar of djarfar, það sést í bert hold. Heilagur Papi var
einnig bannaður á sínum tíma þar sem sást í kross á umbúðunum. Páskagull var
bannaður þar sem hann þótti höfða til barna. Ekki þótti ÁTVR samt neitt athugavert
við það að opna vínbúð inni í barnafataverslun á Ólafsfirði árið 1987. Einnig
hefur ÁTVR bannað sölu á drykknum Cult Shaker sem þó hefur verið fáanlegur frá
2006. Skyndilega og án rannsókna ákvað ÁTVR að þeim þætti vera of mikið af
koffíni í drykknum, það mál er nú á borði EFTA-dómstóla. Þetta eru eingöngu þau
mál sem koma fyrst upp í hugann.
Littlu minni er vitleysan hjá
Tollinum. Þeir hafa fett fingur útí innflutning á tveimur tegundum af
munntóbakslíki, Onico frá Íslensk Ameríska og Kickup frá fyrirtæki Guðmundar
Más Ketilssonar og félaga. Bæði þessi tóbakslíki innihalda ekkert tóbak og eiga
að hjálpa munntóbaksfíklum að hætta að taka tóbak í vörina. Sem flestir hefðu
haldið að væri jákvætt fyrir íslenska alþýðu, en nei, niðurstaða tollstjóra er
sú að varan beri einkenni tóbaks og því eigi hún að bera tóbaksgjald, 13.08
kr/gramm sem er reyndar hærra en munntóbak ber, sem er á milli sjö og átta
kr/gramm. Óskiljanlegt með öllu.
Í viðtali við Fréttablaðið 28
febrúar segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda að ÁTVR
hafi fengið allt of mikið svigrúm til túlkunar. Þar er hann sammála Helga
Hjörvari. Ef ÁTVR er yfirhöfuð að fara eftir einhverjum reglum þegar þeir
ákveða hvaða vín má selja og hvað ekki þurfa þær reglur að vera einfaldar,
gegnsæjar og mega ekki mismuna fyrirtækjum. Það er ekki tilfellið í dag.
Í grein minni sem birtist í
Fréttablaðinu 9 febrúar spyr ég hverjir séu í vöruvalsnefnd ÁTVR og hverjir hjá
Fjármálaráðuneytinu taka ákvarðanir í kærumálum. Enn hefur enginn getað svarað
mér þessum spurningum. Einnig vekur undrun mína að forstjóri ÁTVR hefur ekkert
tjáð sig um neitt þessara mála og samkvæmt blaðamönnum reynist oftar en ekki
erfitt að ná tali af starfsmönnum ÁTVR. Það er einfaldlega með ólíkindum hvað
er mikið að gera hjá starfsfólki ÁTVR. Það er svo mikið að gera að nýr
Evrópustaðall fyrir sígarettur sem tók gildi í nóvember síðastliðnum fór alveg
fram hjá þeim og eru þeir nú sjálfir búnir að kæra Neytendastofu fyrir að banna
þeim að selja ólöglegar sígarettur. Þessa grein má sjá á www.mbl.is þann 28
nóvember.
Í ljósi boða og banna ÁTVR og
gríðarlega hárra gjalda ríkisins er eðlilegt að fólk spyrji sig hvert stefni í
þessum málum. Samkvæmt ársskýrslu ÁTVR fyrir 2010 kemur forstjóri ÁTVR inná að
frá árinu 1996 hafi verið stöðug aukning á sölu hjá vínbúðunum en árið 2010
varð skyndilega samdráttur. Sala á Vodka dróst saman um 20% árið 2010 og áætlar
forstjórinn réttilega að líklega sé ekki um minni drykkju landans að ræða
heldur nái fólk sér í áfengi annars staðar. Með smygli eða heimabruggi. Þetta
er náttúrulega í hróplegu ósamræmi við þær gríðarlega ströngu siðareglur sem
ÁTVR virðist framfylgja af mikilli hörku þessa dagana. Myndmál á umbúðum er
barnalegt, ofbeldishvetjandi eða særir trúarlegar kenndir einhverra en á sama
tíma er áfengið verðlagt til skýjanna svo fólk sækir í áfengi sem nákvæmlega ekkert
eftirlit er með. Þetta kallast að skjóta sig í fótinn.
Það hlýtur að vera komið að þeim tímapunkti að alvarleg
skoðun fari fram á því hvort tími ÁTVR sé ekki einfaldlega liðinn sem einokunarverslunar
á áfengi. Það kostar almenning gríðarlegar upphæðir að reka allar verslanir
ÁTVR með starfsfólki. Ef sala á áfengi væri gefin frjáls væri einfaldlega
enginn kostnaður fyrir ríkið, einungis gróði. Samkvæmt fyrirspurn sem Ásmundur
Einar Daðason gerði á Alþingi árið 2011 kemur í ljós að starfsfólk ÁTVR fór í
30 ferðir erlendis á fyrstu níu mánuðum ársins 2011 og var kostnaður við þær
ferðir rúmar 6 milljónir. Voru þessar ferðir af ýmsum toga, meðal annars fundir
hjá tóbaksframleiðendum, vínsýningar og 10 ferðir um vínhéruð Alsace. Þetta er
merkileg staðreynd, sérstaklega í ljósi þess að ÁTVR flytur ekki inn dropa af
áfengi. Þetta er kostnaður sem er líklegt að þú og ég borgum og er með
ólíkindum að ekki sé verið að skoða þessi mál nánar.
Samkvæmt nýlegri frétt inná
vefnum www.vinbud.is kemur
fram að ÁTVR ætlar sér að fara að hreinsa til í hillum hjá sér og henda út
öllum vörum sem uppfylla ekki skilyrði hinna nýju laga um myndmál á umbúðum
áfengis. Einnig hefur heyrst að það standi til hjá ÁTVR að fækka kjarnabúðum úr
sjö í þrjár. ÁTVR krefst þess að birgjar sýni fram á framlegð uppá 120.000 kr í
hverjum mánuði til þess að geta haldið vörum í reynslusölu. Til að haldast í
sölu í kjarna þarf hins vegar að sýna fram á 900.000 kr. framlegð fyrir bjór í
dós, 600.000 kr. framlegð fyrir bjór í flösku og 300.000 kr. framlegð fyrir
allt annað. Með því að fækka kjarnabúðum úr sjö í þrjár er verið að ýta
fjöldamörgum tegundum og birgjum útaf borðinu.
Nú nýlega voru stofnuð samtök
áfengisheildsala og hafa þau verið að funda með forsvarsmönnum ÁTVR. Það er
vonandi að sá félagsskapur eflist, ekki veitir af því ekki verður betur séð en
að stefna ÁTVR sé hreinlega að losa sig við alla minni birgja og halda eftir
örfáum stórum, þægilegum, birgjum.
Á heimasíðu ÁTVR má sjá þetta um hlutverk
þess:
“ÁTVR er í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir
fjármálaráðherra. Fyrirtækið hefur með höndum eftirtalin verkefni: Innkaup á
áfengi. Birgðahald og dreifingu á áfengi til vínbúða. Rekstur vínbúða. Innkaup,
innflutning, heildsölu og dreifingu á tóbaki. Framleiðslu á neftóbaki.”
Í framhaldi af öllu því sem búið
er að útlista hér að ofan er eðlilegt að spyrja hæstvirtan Fjármálaráðherra að
því hver sé eiginlega stefna hans í málum ÁTVR ? Ætlar ráðherrann í samvinnu
við forstjóra ÁTVR að stefna að gríðarlegum niðurskurði birgja ? Það er mikil
eftirspurn hjá minni birgjum í dag að koma sínum vínum í reynslusölu og allir
leggja bæði tíma og peninga í verkefnið. Þeim þætti gott að vita hvaða línur er
verið að leggja í þessum málum.
Einnig væri sjálfsagt ekki hægt
að hugsa sér betri tíma en einmitt núna, til þess að koma hjólum atvinnulífsins
af stað, að gefa sölu á áfengi frjálsa. Ekkert er sjálfgefið í þeim efnum að
betri þjónusta eða ódýrari vörur verði á
boðstólnum, þvert á móti er líklegt að sérfræðiþjónusta sem starfsfólk ÁTVR býr
yfir í dag verði af skornum skammti og verð hækki á sumum vörum en lækki á
öðrum. Hinsvegar gefur það minni birgjum meiri möguleika á að reyna sýnar vörur
á jafnveldisgrundvelli á markaði, eitthvað sem virðist mjög svo snúið í dag.
Áætlað sölutap vegna Vodka á árinu 2010 var tæplega 90 milljónir samkvæmt
forstjóra ÁTVR. Það hlýtur að vera bein tenging á milli hækkandi álagningar
ríkisins og óskiljanlegra siðareglna ÁTVR sem veldur þessu. Þetta er bara ein
tegund af áfengi, það er auðvelt að áætla að tekjur ríkisins af áfengissölu
gætu margfaldast ef salan yrði gefin frjáls. Eins og ég skil ástandið í dag þá
veitir fjármálaráðherra ekkert af þessum aurum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli