laugardagur, 26. apríl 2014

Ratleikhúsið

Hugmynd fyrir Leikfélag Akureyrar.

LA sem er bráðum að verða 100 ára er komið í þá aðstöðu að á næsta leikári verða engin leikverk sett á svið. Þetta eru náttúrulega ekki góðar fréttir þar sem það er jafn rótgróið í þorp og bæi á Íslandi að vera með leikfélag eins og sundlaug eða sjoppu. Hvað er til ráða ? Kannski Ratleikhús geti hjálpað ?
Veistu ekki hvað ratleikhús er ? Ég skal útskýra.
Eins og í hverjum öðrum ratleik þá er markmiðið að finna tákn eða hluti með aðstoð korts en í þessum leik eru vísbendingarnar leikarar.
Leikurinn byrjar þannig að þú kaupir spjald sem þú getur nælt í barminn og færð með kort þar sem kemur fram á hvaða stöðum eru vísbendingar. Þessir staðir geta verið t.d. Bláa kannan, Eymundson, Jón Sprettur, Dressman Glerártorgi eða bara hvað sem er.
Leikarar á Akureyri þurfa sjálfsagt einhversstaðar að vinna ef þeir eru ekki að leika og væri hægt að einblína á þá staði þar sem þeir eru. Þegar þú svo mætir á staðinn þarft þú að finna „tengiliðinn“ og ná uppúr honum vísbendingunni. Tengiliðurinn (leikarinn) sér að þú ert með barmmerkið og setur sig þá í hlutverk og spilar með í leiknum. Þannig ferð þú á milli staða og veiðir upplýsingar uppúr öllum „tengiliðunum“ og í leiðinni fá leikararnir tækifæri að viðhalda leikhæfileikunum. Jafnvel væri hægt að búa til einhverskonar sögu sem leiðir þig áfram og hver og einn leikari er með hlutverk í sögunni. Sagan er á kortinu sem þú færð með barmerkinu og þú átt að fylla í eyðurnar. Barmerkin væri hægt að fá í tveim litum og væri t.d. blái liturinn fyrir íslendinga og rauði fyrir enskumælandi. Hagnaðurinn sem kæmi af sölu barmerkjanna myndi svo renna til LA. Þeir sem þyrftu að koma að þessu væru LA, Akureyrarbær og að sjálfsögðu eigendur fyrirtæjanna. Eins og í öllum góðum leikjum væru svo frábær verðlaun í boði fyrir þá sem klára leikinn.


Þá veistu hvað ratleikhús er.


sunnudagur, 16. mars 2014

Aðeins meira um hundaskít...............


Á rölti um hverfið mitt er orðið æ erfiðara að stíga niður sökum mikils magns af hundaskít.
Þetta er klassískt umræðuefni og kemur alltaf reglulega upp en hvað er hægt að gera, hver er lausnin ?
Hundaeigendur tala gjarnan um örfáa svarta sauði og hinir „hreinlegu“ eigi ekki að líða fyrir þá og því sé í raun ekkert hægt að gera. Hinsvegar má alveg benda á það að oft eru það bara örfáir svartir sauðir sem eyðileggja allt fyrir hinum. Tökum dæmi. Langflest mótorkross fólk keyrir alltaf á merktum slóðum og passar vel uppá að skilja ekki eftir sár í náttúrunni þegar það keyrir um. Örfáir svartir sauðir hafa samt komið því til leiðar að búið að að loka fyrir aðgang að mörgum svæðum og menn hiklaust sektaðir ef þeir nást við að spóla upp sandi uppá öræfum. Nú nýlega komst í hámæli að örfáir fullir vitlausir íslendingar gangi örna sinna inandyra í skálum uppá hálendinu. Það er því nú í umræðunni að læsa skálunum útaf því. Svona mætti lengi halda áfram, aðeins örfáir svartir sauðir sem eyðileggja fyrir hinum. Af hverju ættu hundaeigendur að fá öðruvísi meðferð ?

Samkvæmt 9 grein, í samþykktum um hundahald á Álftanesi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, frá árinu 2000 kemur skírt fram að hundur eigi ávalt að vera í taumi þar sem umferð gangandi fólks er og  ávalt skuli þrífa upp saur eftir hann. Í 16. Grein stendur síðan að brot á þessu varði sektum. Þar sem það stendur svart á hvítu að ef hundaeigendur þrífa ekki upp skítinn eftir hundana sína verði þeir sektaðir stendur eftir spurningin hver á að fylgjast með þessu ? Er það ég eða þú eða er til eitthvað eftirlit ?  Þegar hringt er í hundaeftirlitsmann í Hafnarfirði og honum tjáð að það sé laus geltandi hundur í garðinum er svarið á þá leið að ef viðkomandi hundur verði handsamaður komi hann og fjarlægi hundinn. Hvaða heilvita maður veður útí garð og reynir að handsama bláókunnugan geltandi hund ? Hundaeftirlitið ætlar ekki að leggja sig í hættu við það svo mikið er víst.
         



Allir hundaeigendur verða að  skrá hundana sína og borga skráningar og (takið eftir) eftirlitsgjald. Það er samt alveg ljóst að það er hvorki eftirlit með lausagöngu hunda né magni hundaskíts á og meðfram göngustígum í Hafnarfirði og því virðist það vera algerlega á ábyrgð hins óbreytta borgara að sanna það að þessi eða hinn hundaeigandinn hafi ekki þrifið upp eftir hundinn sinn. Það er augljóst mál að ekki margir eru tilbúnir í þá baráttu.
Það sem hefur vakið hjá mér mesta furðu eru litlir pokar meðfram göngustígum, fullir af hundaskít. Ég var mikið búinn að hugsa hvað lægi á bakvið það að hafa fyrir því að setja skítinn i poka og henda honum síðan. Svo var mér sagt af hverju þetta væri. Hinir fáu svörtu sauðir setja bara skítinn í poka þegar einhver er að horfa á, um leið og þeir halda að þeir séu úr augsýn er pokanum hent. Ég hef hitt menn sem hafa sjálfir séð þetta gerast.


Ekki er hægt að segja að það vanti hugmyndaauðgi þegar kemur að því að hirða upp hundaskít, hinar ýmsu útfærslur má sjá t.d. HÉR en það besta sem ég hef séð er án efa „veskið“ sem sjá má HÉR það er því bæði hægt að vera cool og samt hirða upp eftir hundinn sinn. Svo mætti gjarnan auka magnið af ruslatunnum og hætta að eltast við eitthvað sem lítur vel út og brennur líka vel og botninn dettur reglulega úr. Það vantar sterkar og góðar ruslatunnur og mikið af þeim.

Því miður held ég að ekkert af þessu eigi eftir að lagast fyrr en hið svokallaða eftirlitsgjald fer í alvörunni í eftirlit, líkt og í bænum Brunette á Spáni, og hinir lötu hundaeigendur verði í alvöru sektaðir eða eftir ítrekuð brot sviptir hundaleyfinu og bannað að eignast hund í einhvern  X tíma. Því miður er það nú einu sinni þannig að það er til lítils að setja boð og bönn ef enginn er til að fylgja þeim eftir. Það mætti jafnvel virkja FANGA til sinna þessu eftirliti og í framtíðinni kjósa með ÞJÓHNAPPINUM um hvort hundahald í þéttbýli sé æskilegt eða ekki.


Það eru til lausnir á öllu, það þarf bara smá vilja og kjark.

Ps. Allar myndirnar eru teknar á einum og sama deginum í stuttum göngutúr um hverfið.

miðvikudagur, 26. febrúar 2014

ÞjóHnappurinn

Hvað er búið að eyða mörgum blaðsíðum í dagblöðum og klukkutímum í sjónvarpi um það hvort eigi að kjósa um hitt eða þetta ? Mörg mál hafa verið í umræðunni síðastliðin ár og ber þar helst að nefna lækkun veiðigjalds og Icesave en eitt frægasta mál ( og langdregnasta ) seinni ára er án efa aðildaviðræðurnar við ESB. Á að kjósa um aðild ? Á að kjósa um áframhaldandi viðræður ? Á að kjósa um að fá að sjá í „pakkann“ ? Til að gera málin oft á tíðum enn flóknari eru pólítíkusar ekki einu sinni alltaf sammála því sem þeir vildu sjálfir kannski ári áður. Endalaus umræðan heldur áfram og fyllir dagblöð, útvarp og sjónvarp. Á þetta eða hitt málið að fara í þjóðaratkvæðisgreiðslu eða ekki ?
Kjósa eða ekki kjósa, það er spurningin. Svarið, hinsvegar, finnst mér vera algjörlega augljóst. Það eina sem þarf að ákveða er prósentan. Leyfið mér að útskýra.
í Sviss er notast við svokallað „beint lýðræði“. Það hefur verið þar við lýði í mörg herrans ár og virkar bara nokkuð vel að sögn heimamanna. Það virkar þannig að þegar 100.000 eru mótfallnir máli sem er á leið í gegnum þingið geta þeir krafist þess að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Helsti gallinn við þetta ferli er að þegar það var sett á þá var miðað við 100.000 manns, sem í dag þykir ekki ýkja mikið í Swiss. Í dag myndu þeir líklega notast við ákveðið prósentuhlutfall af ríkisborgurum. Þeir einfaldlega rita „NEI“ á miða og setja hann í sérstakt kosningabox. Þegar svo „NEI“ miðarnir eru orðnir 100.000 Þá ber þeim sem eru við völd að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einfalt ekki satt ?
Á vef Alþingis eru daglegar færslur um þau mál sem eru í umræðunni í það og það skiptið. Ef mikilvæg málefni eru á dagskrá eru allar líkur á því að þau mál verði komin á netmiðla og í umræðuna mjög fljótlega. Mín hugmynd er sú að inná vef Alþingis sé hnappur, sem mætti kalla þjóhnapp, sem virkar þannig að ef ýtt er á hnappinn, rafrænt, skráist eitt atkvæði. Það mætti notast við IP tölur, kennitölur, lykilorð úr heimabanka eða hvaðeina til að tryggja að einn maður eigi eitt atkvæði. Þegar síðan t.d. 10% kosningabærra mann, cirka 24.500 manns, hafa kosið, ber stjórnvöldum að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem mætti síðan hæglega fara fram á netinu líka.
Auðvitað verða deilur um hvaða prósentutölu er best að miða við en með tíð og tíma má slípa það til. Líklega þyrfti hún að vera aðeins hærri en 10%.
Samkvæmt rannsókn frá Hagstofu Íslands síðan 2012 þá eru tölvur á 96% heimila landsmanna, sem er með því mesta á öllu EES svæðinu. Því má til sanns vegar færa að það er auðveldara fyrir landsmenn að kjósa á netinu en á gamla mátan, með því að mæta á staðinn og krota á miða.
Með þessu móti geta þeir sem dunda sér við það að öskra og niðurlægja hvor aðra á hinu háa Alþingi einbeitt sér að því sem þeir voru kosnir til. Að vinna að því sem þeir lofuðu í kosningabaráttunni án stöðugra afskipta frá almenningi um það hvort þeim finnist ekki að þjóðin eigi að kjósa um málið. Þjóhnappurinn sér alveg um að svara þeirri spurningu. Ef 10% markinu er ekki náð á meðan málið fer í gegnum Alþingi þarf einfaldlega ekkert að ræða það frekar.
Fjölmargar kosningar fara nú þegar fram á netinu, sem dæmi má nefna að tæplega 70.000 manns skrifuðu undir vilja til þess að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni á www.lending.is og rúmlega 33.000 manns hafa skrifað undir vilja til að klára samningaviðræður við ESB á www.tjod.is . Þessar kosningar þykja góðar og gildar og er því augljóst mál að það eina sem þarf að ræða er hversu há prósentan á að vera fyrir Þjóhnappinn.
Nú vantar bara stjórnmálaflokk sem þorir að leyfa þjóðinni stundum að ráða.
Næst þegar þú lest langan pistil um að þetta eða hitt málið eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu gætir þú hugsanlega verið að gera eitthvað miklu gáfulegra ef þjóhnappurinn væri við lýði, t.d. fá þér góðan bjór.

Hjörleifur Árnason
Áhugamaður um betra samfélag


mánudagur, 13. maí 2013

Fangelsi á Íslandi – ný hugsun



Meðalkostnaður við eins manns ágætis herbergi  á góðu hóteli á Íslandi er um 20 – 25 þúsund krónur með morgunmat. Það vill svo skemmtilega til að samkvæmt Páli Winkel fangelsismálastjóra er það einmitt svipuð upphæð og sem kostar að vista fanga í fangelsum á Íslandi. Þetta er um 8.5 milljónir á ári. Kostnaður við hvern fanga í Bandaríkjunum er um 2.5 milljónir. Kostnaður per fanga á Íslandi er um helmingi meiri en meðal verkamaður þénar á ári, fyrir skatt. Þegar maður hefur þessar tölur fyrir framan sig hýtur að vakna sú spurning hvort það sé eðlilegt að það kosti helmingi meira, að halda uppi einstaklingi sem hefur brotið svo alvarlega af sér að það þurfi að fjarlægja hann úr umferð, en meðal verkamaður getur þénað á ári með eðlilegri vinnu með öllu sem því fylgir ?
Á íslandi eru fimm fangelsi og er nýting þeirra um 110%. Margir þeir sem dvelja í fangelsum landsins eru þar vegna þess að þeir hafa rænt almenna borgara, nauðgað, drepið eða limlest saklaust fólk. Þessir glæpamenn hafa jafnvel eyðilagt heilu fjölskyldurnar með verknaði sínum, gert hluti sem aldrei verða bættir. Að moka þægindum undir þessa glæpamenn og gera þá að fjölmiðlastjörnum er eitthvað sem er algerlega óskiljanlegt og óþolandi.
Hið nýja fangelsi sem verður byggt á Hólmsheiði kemur til með að kosta 2 milljarða og ekki skrýtið þar sem farið verður í einu og öllu eftir hinum svokallaða Nordic Built sáttmála. Sú hugmyndafræði byggir á að við skoðun á manngerðu umhverfi er leitast við að auka lífsgæði, nýta sjáflbærni, staðbundnar auðlindir og byggja á norrænni hönnunarhefð eins og hún gerist best. Það er ekki eins og það sé verið að byggja hús fyrir glæpamenn. Alls verða ekki nema 56 fangar vistaðir í þessum lúxus. Aðbúnaður hvers fanga kostar því 37 milljónir plús innanstoksmunir sem verða væntanlega ekki af verri endanum. Sem dæmi um það sem koma skal hefur Framvkæmdasýsla ríksisns ákveðið að punga út 25 milljónum bara í listskreytingar svo eitthvað verður nú splæst í aðstöðuna.
Það eina sem þolendur glæpa vilja sjá er að glæpamönnunum sé komið úr umferð svo fleiri þurfi ekki að lenda í sama skaða og þeir hafa þurft að þola. Með rándýrum og of fáum fangelsum, allt of þungu réttarkerfi og óþolandi biðlistum reynist það íslenska ríkinu þrautin þyngri að uppfylla þessar lágmarkskröfur þolenda.  Fyrir vikið heyrum við reglulega af „góðkunningjum lögreglunnar“ sem hún þarf að eiga við jafnvel mörgum sinnum á ári.
Hvað er til ráða ?
Þriggja þrepa fangelsisvistun þar sem fyrstu tvö þrepin eru hugsuð sem betrun en hið þriðja er eingöngu refsing.
Mætti hugsa sér að í fyrsta þrepi þar sem dómur er innan við ár og gerandi er að brjóta af sér í fyrsta skipti yrði vistun á svipuðum nótum og Kvíabryggja er í dag. Opið fangelsi þar sem viðkomandi getur sótt nám og unnið fyrir sér. Næsta þrep gæti verið ef dómur er tvö ár eða minna og gerandi er að brjóta af sér í fyrsta skipti. Þá færi vistun fram í lokuðu fangelsi líkt og Litla Hrauni. Þar væri einnig í boði nám og vinna. Þriðja og síðasta þrepið er eingöngu hugsað fyrir mjög alvarlega glæpi eða síbrotamenn, t.d. hina svokölluðu „góðkunningja“. Þar væru fangar einfaldlega settir í ódýr fanglesi sem eingöngu væru hugsuð til þess að halda þeim inni og refsa fyrir glæpi sína. Ekkert nám væri í boði, engin afþreying og engin vinna. Staðsetning þessa fangelsis væri fjarri öllum mannabygðum og ætti þetta að vera staður sem enginn lifandi maður vildi dvelja á. Með þessu móti er ljóst að nokkur atriði náist fram. Möguleiki á að byggja fleiri fangelsi fyrir miklu minni pening, biðlistar eftir fangavist myndu hverfa, lögreglan þyrfti ekki að eyða sínum dýrmæta tíma í að eltast við sömu glæpamennina hvað eftir annað og saklausir borgarar gætu hugsanlega andað örlítið léttar.
Nú verða eflaust margir fljótir að koma með pantaða tölfræði um að verri fangavist skili ekki betri fólki út úr fangelsunum. Svarið við því er einfalt, ef það er búið að brjótast inn til þín og þeir haldið nauðugum á meðan fjölskyldunni er misþyrmt þá er þér bara alveg sama hvort glæpamennirnir komist ekki örugglega í ræktina alla daga vikunnar og fái ekki diploma á húsgagnasmíði þegar þeir losna úr fangelsi eftir allt of stuttan tíma. Aðalmálið er að losna við glæpamenn af götunum, ekki að dúða þá í bómul og eyða milljónum í reyna að gera þá að betri samborgurum sem reynslan hefur sýnt að gangi hvort eð er ekki eftir í mörgum tilfellum.
Rafrænt eftirlit á föngum þyrfti líka að aukast en það hefur gefist mjög vel í Svíþjóð, Danmörk og Noregi. Helstu gallar við það hingað til er kostnaður en auðveldlega má draga úr honum með því að láta föngum í té GSM síma með GPS sendum, sem eru í flestum símum í dag, svo hægt sé að staðsetja þá í stað rándýra öklabanda sem þykja til þessa hafa haft háa bilanatíðni. Með GPS síma er einnig hægt að hringja inn myndrænt til að sanna staðsetningu fangans. Eitthvað sem ekki er hægt með öklabandi. Rafrænt eftirlit er að sjálfsögðu eingöngu nýtt hjá föngum sem þykja til þess hæfir. Allir fangar sem gætu nýtt sér rafrænt eftirlit ættu að taka þátt í samfélagsþjónustu og hana mætti stórauka. Má þar t.d. nefna aðstoð við að halda útivistarperlum Íslands þrifalegum með sorphirðu, leggja göngustíga  og girða af viðkvæmar náttúruperlur. Reglulega kemur upp sú umræða hér á landi um það hver á að bera kostnað af þessum framkvæmdum og sjá um þær. Oft eru þessir staðir ekki í alfaraleið og erfitt að fá fólk í verkið. Með aukinni samfélagsþjónustu fanga mætti hugsanlega bjarga mörgum af perlum Íslands frá stöðugt auknum þunga ferðamanna. Það er löngu tímabært að sjá fanga  í appelsínugulum göllum spranga um landið að tína rusl og ditta að hinu og þessu. Það er ótrúlegur miskilningur og byggður á ranghugmyndum að það sé verið að brjóta á mannréttindum fólks þótt það sé látið vinna samfélagsvinnu.
Hlutfall erlendra ríkisborgara í íslenskum fangelsum er búið að stóraukast síðan Íslendingar gengu í Schengen árið 2001. Var 8% þá en er komið í um 22% í dag. Þessir fangar hafa margir hverjir haft á orði bæði í fjölmiðlum og annarsstaðar að fangelsi á Íslandi væru líkari fimm stjörnu hótelum í þeirra heimalandi. Með það á bakvið eyrað, er nema von að þessir fáu svörtu sauðir landa í Schengen hiki ekki við að streyma til landsisn í von um skjótfenginn gróða. Þessir fangar hafa engann áhuga á því að láta framselja sig til síns heimalands þveröfugt við það sem gerist þegar Íslendingar eru teknir erlendis með fulla vasa af eiturlyfjum á leiðinn til Íslands að selja skólakrökkum og eyðileggja fleiri fjölskyldur. Þá fara fjölmiðlar á fullt að gagnrýna utanríkisráðherra að ganga ekki í málið og fá glæpamanninn strax heim, undirskriftalistar byrja á Facebook og blaða- og sjónvarpsmenn keppast um að taka viðtöl.
Þegar svo er komið að fólkið sem byggði landið og býr nú á heimilum fyrir aldraða skilur ekki orð af því sem starfsmennirnir segja, fær ekki að fara í bað nema með frekju og er aðskilið frá maka sínum til þess eins að vera þvingað til þess að búa með óþekktum einstaklingi í allt of litlum herbergjum er kominn tími til þess að fara aðeins að endurskoða forgangsröðunina hjá hinu opinbera. Eftirminnilegt er viðtal við eldri mann í sjónvarpinu sem sagði að hann væri að hugsa um að fara að stunda glæpi þar sem aðbúnaður á Litla Hrauni liti út fyrir að vera töluvert betri en sá sem hann hafði. Það er löngu tímabært að taka á glæpamönnum eins og um glæpamenn sé að ræða en ekki eins og  fjölmiðlastjörnum sem koma á forsíðum blaðana vegna þess að þeir náðu heilum mánuði á Hrauninu án þess að detta í það.

Hjörleifur Árnason
Áhugamaður um betra samfélag

miðvikudagur, 8. maí 2013

Ráðþrota ráðherrar


Alþingismenn hafa gaman af því að leika sér með tölur og alltaf er jafn gaman af því að horfa á þá “túlka” niðurstöður hins og þessa með sínum hætti. Nýlegt dæmi er að sjálfsögðu eitt mesta bruðl seinni tíma, Stjórnlagaráð, sem hefur líklega kostað Íslendinga vel yfir miljarð og niðurstaðan er hver nákvæmlega ? Enn deila sérfræðingar um hvernig eigi að túlka niðurstöður kosninganna sem fram fóru í ágúst síðastliðnum og fáir virðast vera  sammála.
Ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar hreykja sér af því að atvinnuleysi sé að minnka, hægt þó, en kjósa að hunsa þær tölur hagstofunnar að um 8000 fleiri einstaklingar hafa flutt frá Íslandi síðan 2008 heldur en til landsins. Þetta er svipaður fjöldi og ef allir íbúar í Mosfellsbæ hefðu flutt af landi brott á síðustu fjórum árum og flóttinn heldur áfram.  Er enginn að velta þessum tölum fyrir sér?
Einstaklingar hafa réttindi sem tryggð eru að lögum. Oft er það þannig að ríkisstofnanir leitast við að þrengja réttindin eða reyna jafnvel að komast upp með að virða þau ekki. ÁTVR er ríkisstofnun og henni ber að fara að lögum. Þau lög eru hluti af stærri heild og hún verður að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru á evrópska efnahagssvæðinu. Þótt viðurkennt sé bæði á því svæði og innan EB að ríki er heimilt að reka einkasölu á áfengi þá getur stofnunin ekki farið sínu fram heldur verður hún að virða almennar leikreglur og gefa sem flestum færi á að koma vörum sínum á framfæri.
Það er síðan einkennilegt svo ekki sé sterkar að orði kveðið að ráðherrar sem eru ábyrgir fyrir þessari stofnun virðast ekki treysta sér til að svara fyrir hana. Íslenskir stjórnmálamenn komast upp með ýmislegt eins og dæmin sanna.
Í september 2012 kærði ÁTVR þá ákvörðun Neytendastofu að samkvæmt EES mætti ÁTVR ekki selja sígarettur sem væru ekki með svokölluðum “stoppara”. Auðvitað var sú kæra dæmd dauð og ómerk þar sem ÁTVR ber að fylgja reglum EES eins og öllum öðrum þjóðum sem eiga aðild að evrópska efnahagssvæðinu. Nú fyrir stuttu hefur aftur verið slegið á puttanna á þessarri ríkisreknu einokunarstofnum. Í þetta sinn fyrir að banna sölu á drykkjum sem voru ekki með myndmál þóknanlegt þeirri óskilgreindu nefnd sem starfar hjá ÁTVR og ákveður hvað má selja. Í þetta sinn voru það ekki litlar stofnanir á Íslandi sem voru að skamma þá, nei, við erum að tala um dómstól sem sér um að túlka ákvæði EES samningsins, EFTA dómstólin. Niðurstaða dómstólsins var einfaldlega sú ÁTVR má ekki synja að taka í sölu drykki, sem uppfylla öll önnur skilyrði, á grundvelli þess að merkingarnar brjóti í bága við almennt velsæmi. Dómstóllinn lagði áherslu á það að ríkinu og stofnunum þess ber að gæta meðalhófs og að verklagsreglur verða að vera til þess fallnar að ná því markmiði sem að er stefnt. Þessum skilyrðum var ekki fullnægt í tengslum við umrætt ákvæði, sem heimilar ÁTVR að synja að taka áfenga drykki í sölu á grundvelli þess að merkingarnar innihaldi upplýsingar sem kunna að brjóta í bága við almennt velsæmi. Fyrir allt venjulegt fólk þýðir þetta að ÁTVR má ekki neita að taka í sölu áfengi með miða á, sem þeim líkar ekki við, einhverra hluta vegna. Sem sagt, siðareglur ÁTVR brjóta í bága við reglur EFTA dómstólsins. Dómstóllinn gaf út álit, en álit hans eru ekki bindandi þó að farið sé í raun eftir þeim því annars eru líkur á því að viðkomandi ríki myndi gerast brotlegt gegn EES-samningnum og gæti þá einnig orðið skaðabótaskylt.  Í kjölfar þessa máls hefur ÁTVR ákveðið að gefa öllum sem búið var að neita um reynslusölu annan séns og stefnir því allt í að á Íslandi brjótist fljótlega út stríð og eiturlyfjaneysla aukist til muna, en það var einmitt hluti af rökum ÁTVR á sínum tíma þegar bannað var að selja Motörhead Shiraz rauðvín sem nú er komið í hillur ÁTVR í Kringlunni, Skútuvogi og Heiðrúnu. Forsvarsmenn ÁTVR sjá sem sagt ástæðu til þess að efna skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum án þess að fjármálaráðherra sjái nokkra ástæðu til þess og eiga þeir hrós skilið fyrir.
I byrjun mars 2011 sótti fyrirtækið ROKK slf. um reynslusölu á Motörhead rauðvíni í vínbúðum ríkisins. Því var hafnað af ÁTVR, samþykkt af lögfræðingi Fjármálaráðuneytis en síðar hafnað af sama lögfræðingi nokkru seinna. Þetta ferli tók eitt ár og hefur verið útlistað í fyrri greinum mínum. Málið fór síðan inn á borð umboðsmanns Alþingis í janúar 2012 þar sem honum fannst að ekki væri eðlilega staðið að málinu og krafði hann þáverandi fjármálaráðherra um svör. Umboðsmaður gaf frest til 10. apríl, ekkert svar kom frá fr. Oddnýju Harðardóttur. Umboðsmaður sendi Oddnýju ítrekunarbréf þann 8. maí, 14. júní og 26. júlí 2012. Engum þeirra var svarað. 14. nóvember fékk síðan fr. Katrín Júlíusdóttir, þáverandi fjármálaráðherra, í hendurnar fjórða ítrekunarbréfið frá umboðsmanni og það fimmta 19 desember 2012. Það var síðan ekki fyrr en í lok apríl 2013 sem svar barst frá ráðuneytinu. Þar var littlu bætt við fyrri niðurstöður og röksemdafærsla af skornum skammti. Þeirra skoðun er enn sú að vínið sé stórhættulegt og varði við almannahagsmuni að setja það á markað.
Maður hlýtur að spyrja sig, ef ráðuneytið sér ekki ástæðu til þess að svara umboðsmanni Alþingis fyrr en seint og illa, hvaða séns hefur almenningur á skilvirkri og heiðarlegri umsýslu sinna mála hjá ráðuneytum landsins ?
HOB vín vildu fá að flytja inn eplacider en var hafnað með svipuðum rökum og Motörhead Shiraz var hafnað. Þeir kærðu sitt mál einnig til umboðsmanns Alþingis sem sendi fimm ítrekunarbréf til fjármálaráðherra, fr. Katrínar Júlíusdóttur, án þess að fá svar. Ráðherra fékk síðan þriggja síðna harðort skammarbréf frá umboðsmanni fyrir lélega stjórnsýslu. Mér er til efs að hún hafi svo mikið sem lesið það.
Þeir fáu sem hafa fjármagn, tíma og nennu og ákveða að kæra ríkisstofnanir fyrir afleit vinnubrögð virðast hafa erindi sem erfiði oftar en ekki. Einhvern veginn finnst mér það vera lengri leiðin til þess að fá þokkalega þjónustu. Frá því að ég man eftir mér hefur fólk allt í kringum mig kvartað yfir samskiptum sínum við ríkisstofnanir og eftir því sem þær eru stærri þeim mun verri þjónustu fær það. Af hverju er þjónustustigið hjá ríkisstofnunum svona gríðalega lágt ? Í rúmt ár núna hefur fyrirtækið ROKK slf. leyst út áfengi hjá tollstjóraembættinu án erfiðleika. Nú bregður svo við að nýjar reglur sem tóku gildi í lok nóvember 2012 skylda öll ný fyrirtæki til að borga fyrirfram hjá tollstjóra til þess að geta leyst út vörur sínar. Í stað þess sem áður var að fyrirtæki fengu tollkrít til að leysa út sínar vörur. Þetta er enn ein reglan frá Fjármálaráðuneytinu til þess að gera sprotafyrirtækjum erfitt fyrir.
Í endurreisnarskýrslu sjálfstæðismanna sem kom út árið 2009 leggja þeir sérstaklega til að stuðningur sé fyrir hendi þegar einstaklingar séu að stofna ný fyrirtæki og vilja einnig sjá hvata til að styrkja við nýsköpun. Allt annað virðist hafa verið uppá teningnum hjá fráfarandi ríkisstjórn, en í dag fer 87% af verði hverrar vodka flösku, sem seld er í ÁTVR, beint í kassann hjá ríkinu.
Það er einlæg von mín að ný ríkisstjórn taki á þessum slælegu vinnubrögðum innan ráðuneytanna og komi þessum ráðþrota ráðherrum frá. Nóg er til af hæfu fólki sem er tilbúið að sinna þessarri vinnu og gera það mun betur en það fólk sem virðist vera æviráðið á þessar stofnanir og þurfi ekki að sanna eða sýna einum né neinum að það sé yfir höfuð að gera nokkuð í vinnunni. Á mörgum vinnustöðum eru reglulega haldin starfsmannaviðtöl þar sem yfirmenn og undirmenn fara yfir liðið ár og frammistöðu starfsmanns. Það er löngu tímabært að taka slíkt upp í ráðuneytum landsins og opinberum stofnunum.

Lifið heil
Hjörleifur Árnason
Höfundur er áhugamaður um frjálsa hóflega víndrykkju

Einræðisherrann ÁTVR



Umræðan um boð og bönn ÁTVR undanfarið hefur farið fram hjá fáum. Nú er gengið harðar fram en áður í að útiloka ýmsar tegundir áfengis úr hillum verslana ÁTVR. Þetta hefur á tíðum vakið svo mikla undrun að sjálfur formaður efnahags- og skattanefndar, Helgi Hjörvar, sem hafði umsjón með nýju lagafrumvarpi fyrir ÁTVR, sagði orðrétt “Það er langt seilst í rökstuðningi fyrir þessari ákvörðun ÁTVR”. Þar er Helgi að vitna í bann við sölu á rauðvíninu Motörhead Shiraz. Í sömu grein segir aðstoðarforstjóri ÁTVR, Sigrún Ósk Sigurðardóttir, að núverandi kerfi sé kannski ekki svo heppilegt þegar ákveða á hvaða vín hlýtur náð fyrir augum vöruvalsnefndar ÁTVR.
Hvort sem það er tilviljun sem veldur því að einmitt núna þessi misserin er verið að neita fjölmörgum tegundum skal ósagt látið en meðal þess sem særir blygðunarkennd nefndarinnar er t.d. Black Death bjór, þar er ástæðan letur utan á dósinni sem er á þessa leið “Drink in Peace” sem er bannað. Annar drykkur er Tempt Cider sem er danskt eplavín, þar eru umbúðirnar of djarfar, það sést í bert hold. Heilagur Papi var einnig bannaður á sínum tíma þar sem sást í kross á umbúðunum. Páskagull var bannaður þar sem hann þótti höfða til barna. Ekki þótti ÁTVR samt neitt athugavert við það að opna vínbúð inni í barnafataverslun á Ólafsfirði árið 1987. Einnig hefur ÁTVR bannað sölu á drykknum Cult Shaker sem þó hefur verið fáanlegur frá 2006. Skyndilega og án rannsókna ákvað ÁTVR að þeim þætti vera of mikið af koffíni í drykknum, það mál er nú á borði EFTA-dómstóla. Þetta eru eingöngu þau mál sem koma fyrst upp í hugann.
Littlu minni er vitleysan hjá Tollinum. Þeir hafa fett fingur útí innflutning á tveimur tegundum af munntóbakslíki, Onico frá Íslensk Ameríska og Kickup frá fyrirtæki Guðmundar Más Ketilssonar og félaga. Bæði þessi tóbakslíki innihalda ekkert tóbak og eiga að hjálpa munntóbaksfíklum að hætta að taka tóbak í vörina. Sem flestir hefðu haldið að væri jákvætt fyrir íslenska alþýðu, en nei, niðurstaða tollstjóra er sú að varan beri einkenni tóbaks og því eigi hún að bera tóbaksgjald, 13.08 kr/gramm sem er reyndar hærra en munntóbak ber, sem er á milli sjö og átta kr/gramm. Óskiljanlegt með öllu.
Í viðtali við Fréttablaðið 28 febrúar segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda að ÁTVR hafi fengið allt of mikið svigrúm til túlkunar. Þar er hann sammála Helga Hjörvari. Ef ÁTVR er yfirhöfuð að fara eftir einhverjum reglum þegar þeir ákveða hvaða vín má selja og hvað ekki þurfa þær reglur að vera einfaldar, gegnsæjar og mega ekki mismuna fyrirtækjum. Það er ekki tilfellið í dag.
Í grein minni sem birtist í Fréttablaðinu 9 febrúar spyr ég hverjir séu í vöruvalsnefnd ÁTVR og hverjir hjá Fjármálaráðuneytinu taka ákvarðanir í kærumálum. Enn hefur enginn getað svarað mér þessum spurningum. Einnig vekur undrun mína að forstjóri ÁTVR hefur ekkert tjáð sig um neitt þessara mála og samkvæmt blaðamönnum reynist oftar en ekki erfitt að ná tali af starfsmönnum ÁTVR. Það er einfaldlega með ólíkindum hvað er mikið að gera hjá starfsfólki ÁTVR. Það er svo mikið að gera að nýr Evrópustaðall fyrir sígarettur sem tók gildi í nóvember síðastliðnum fór alveg fram hjá þeim og eru þeir nú sjálfir búnir að kæra Neytendastofu fyrir að banna þeim að selja ólöglegar sígarettur. Þessa grein má sjá á www.mbl.is þann 28 nóvember.


Í ljósi boða og banna ÁTVR og gríðarlega hárra gjalda ríkisins er eðlilegt að fólk spyrji sig hvert stefni í þessum málum. Samkvæmt ársskýrslu ÁTVR fyrir 2010 kemur forstjóri ÁTVR inná að frá árinu 1996 hafi verið stöðug aukning á sölu hjá vínbúðunum en árið 2010 varð skyndilega samdráttur. Sala á Vodka dróst saman um 20% árið 2010 og áætlar forstjórinn réttilega að líklega sé ekki um minni drykkju landans að ræða heldur nái fólk sér í áfengi annars staðar. Með smygli eða heimabruggi. Þetta er náttúrulega í hróplegu ósamræmi við þær gríðarlega ströngu siðareglur sem ÁTVR virðist framfylgja af mikilli hörku þessa dagana. Myndmál á umbúðum er barnalegt, ofbeldishvetjandi eða særir trúarlegar kenndir einhverra en á sama tíma er áfengið verðlagt til skýjanna svo fólk sækir í áfengi sem nákvæmlega ekkert eftirlit er með. Þetta kallast að skjóta sig í fótinn.
Það hlýtur að vera komið að þeim tímapunkti að alvarleg skoðun fari fram á því hvort tími ÁTVR sé ekki einfaldlega liðinn sem einokunarverslunar á áfengi. Það kostar almenning gríðarlegar upphæðir að reka allar verslanir ÁTVR með starfsfólki. Ef sala á áfengi væri gefin frjáls væri einfaldlega enginn kostnaður fyrir ríkið, einungis gróði. Samkvæmt fyrirspurn sem Ásmundur Einar Daðason gerði á Alþingi árið 2011 kemur í ljós að starfsfólk ÁTVR fór í 30 ferðir erlendis á fyrstu níu mánuðum ársins 2011 og var kostnaður við þær ferðir rúmar 6 milljónir. Voru þessar ferðir af ýmsum toga, meðal annars fundir hjá tóbaksframleiðendum, vínsýningar og 10 ferðir um vínhéruð Alsace. Þetta er merkileg staðreynd, sérstaklega í ljósi þess að ÁTVR flytur ekki inn dropa af áfengi. Þetta er kostnaður sem er líklegt að þú og ég borgum og er með ólíkindum að ekki sé verið að skoða þessi mál nánar.
Samkvæmt nýlegri frétt inná vefnum www.vinbud.is kemur fram að ÁTVR ætlar sér að fara að hreinsa til í hillum hjá sér og henda út öllum vörum sem uppfylla ekki skilyrði hinna nýju laga um myndmál á umbúðum áfengis. Einnig hefur heyrst að það standi til hjá ÁTVR að fækka kjarnabúðum úr sjö í þrjár. ÁTVR krefst þess að birgjar sýni fram á framlegð uppá 120.000 kr í hverjum mánuði til þess að geta haldið vörum í reynslusölu. Til að haldast í sölu í kjarna þarf hins vegar að sýna fram á 900.000 kr. framlegð fyrir bjór í dós, 600.000 kr. framlegð fyrir bjór í flösku og 300.000 kr. framlegð fyrir allt annað. Með því að fækka kjarnabúðum úr sjö í þrjár er verið að ýta fjöldamörgum tegundum og birgjum útaf borðinu.
Nú nýlega voru stofnuð samtök áfengisheildsala og hafa þau verið að funda með forsvarsmönnum ÁTVR. Það er vonandi að sá félagsskapur eflist, ekki veitir af því ekki verður betur séð en að stefna ÁTVR sé hreinlega að losa sig við alla minni birgja og halda eftir örfáum stórum, þægilegum, birgjum.
Á heimasíðu ÁTVR má sjá þetta um hlutverk þess:
“ÁTVR er í eigu íslenska ríkisins og heyrir undir fjármálaráðherra. Fyrirtækið hefur með höndum eftirtalin verkefni: Innkaup á áfengi. Birgðahald og dreifingu á áfengi til vínbúða. Rekstur vínbúða. Innkaup, innflutning, heildsölu og dreifingu á tóbaki. Framleiðslu á neftóbaki.”
Í framhaldi af öllu því sem búið er að útlista hér að ofan er eðlilegt að spyrja hæstvirtan Fjármálaráðherra að því hver sé eiginlega stefna hans í málum ÁTVR ? Ætlar ráðherrann í samvinnu við forstjóra ÁTVR að stefna að gríðarlegum niðurskurði birgja ? Það er mikil eftirspurn hjá minni birgjum í dag að koma sínum vínum í reynslusölu og allir leggja bæði tíma og peninga í verkefnið. Þeim þætti gott að vita hvaða línur er verið að leggja í þessum málum.
Einnig væri sjálfsagt ekki hægt að hugsa sér betri tíma en einmitt núna, til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað, að gefa sölu á áfengi frjálsa. Ekkert er sjálfgefið í þeim efnum að betri þjónusta eða  ódýrari vörur verði á boðstólnum, þvert á móti er líklegt að sérfræðiþjónusta sem starfsfólk ÁTVR býr yfir í dag verði af skornum skammti og verð hækki á sumum vörum en lækki á öðrum. Hinsvegar gefur það minni birgjum meiri möguleika á að reyna sýnar vörur á jafnveldisgrundvelli á markaði, eitthvað sem virðist mjög svo snúið í dag. Áætlað sölutap vegna Vodka á árinu 2010 var tæplega 90 milljónir samkvæmt forstjóra ÁTVR. Það hlýtur að vera bein tenging á milli hækkandi álagningar ríkisins og óskiljanlegra siðareglna ÁTVR sem veldur þessu. Þetta er bara ein tegund af áfengi, það er auðvelt að áætla að tekjur ríkisins af áfengissölu gætu margfaldast ef salan yrði gefin frjáls. Eins og ég skil ástandið í dag þá veitir fjármálaráðherra ekkert af þessum aurum.

 Hjörleifur Árnason
 CEO ROKK slf





Motörhead gegn íslenska ríkisbákninu


Motörhead gegn íslenska ríkisbákninu

Á hverjum degi flytja fimm manns frá Íslandi til þess að hefja nýtt líf í öðru landi.

Eftir 2008 hefur hvert áfallið á fætur öðru dunið á hinum almenna borgara með hækkandi sköttum og verðlausari krónu og hafa menn reynt hvað þeir geta til þess að bæta upp tapið með allskyns aukavinnu. 
Eitt slíkt tilvik átti sér stað í mars 2011. Þá var stofnað fyrirtækið ROKK slf sem ætlaði sér stóra hluti á innflutningi á Rauðvíninu Motörhead Shiraz og verður saga þess rakin hér stuttlega.
Stofnendur gerðu sér grein fyrir gríðarlega háum og ósanngjörnum tollum og gjöldum á áfengi en töldu sig vera með nokkuð sérstaka vöru sem hefur ekki verið í boði á íslenskum markaði hingað til. Þeir voru komnir í samband við nokkra aðila sem sérhæfa sig í framleiðslu vína sem eru framleidd í samstarfi við tónlistarmenn og / eða umboðsmenn þeirra og eru kennd við þá.

Byrjað var á því að flytja inn einn kassa til að kanna markaðinn og farið með tvær flöskur til ÁTVR sem prufur til að leggja fyrir óskilgreinda nefnd sem leggja átti mat á það hvort vínið kæmist í reynslusölu eða ekki. Þetta var í byrjun mars 2011. 

28 mars tekur síðan nefnd ÁTVR ákvörðun um að hafna umsókninni um vínið og vísar þar til siðareglna ÁTVR. ROKK slf leggur þá fram mótgögn í málinu og reynir að snúa við ákvörðun ÁTVR.

29 apríl er svarað með staðfestingu á fyrri höfnun. Þá er málið kært samdægurs til Fjármálaráðuneytis eins og eðlilegt ferli er. Engar upplýsingar eru gefnar um hvar eigi að kæra og kæran því send á skrifsfofustjóra ráðuneytisins sem áframsendir beiðnina samdægurs til lögfræðings ráðuneytisins.

5 maí svarar svo Guðmundur Jóhann Árnason lögfræðingur og er settur á fundur með honum þar sem farið er yfir stöðu mála og í beinu framhaldi lögð fram formleg kæra.

1 júlí kemur loksins svar, eftir margítrekaðar tölvupóstsendingar, um að búið sé að úrskurða í málinu. Niðurstaðan var sú að kærunefnd Fjármálaráðuneytis hefði komist að þeirri niðurstöðu að snúa við ákvörðun ÁTVR um að hafna umsókn um Motörhead Shiraz. 
Aðgangur að birgja vef ÁTVR er síðan veittur 13 júlí og samdægurs sótt um reynslusölu á Motörhead Shiraz í gegnum vefinn.

Fyrir fyrirtæki sem er nýstofnað og á vægast sagt mjög erfitt með að fá skýr svör um næstu skref var álitið sem svo að málið væri í höfn og því farið í það að panta eitt bretti af rauðvíni. Annað kom hinsvegar í ljós. ÁTVR hafði eingöngu verið að hafna "umsókn" um reynslusölu, en ekki reynslusölunni sjálfri. Einnig er rétt að taka fram á þessum tímapunkti að ROKK slf hefur enginn svör fengið um það hvaða fólk situr í ákvörðunarnefnd ÁTVR né hverjir sitja í kærunefnd Fjármálaráðuneytisins.

Eftir margítrekaðar tilraunir til svars um ákvörðun um sölu, kemur, þann 3. Ágúst,  loksins svar frá framkvæmdastjóra sölu og þjónustusviðs ÁTVR, þar sem hann segir að svars megi vænta á næstu dögum.

17 ágúst er svo þolinmæðin á þrotum og póstur sendur á Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra Fjármálaráðuneytisins  og Ívar J. Arndal forstjóra ÁTVR til að fá úr því skorið hvort yfir höfuð væri verið að vinna í málum ROKK slf, hvorugur þeirra hafði fyrir því að svara.

22 ágúst kemur svo niðurstaða ÁTVR um að stofnunin hafni reynslusölu á Motörhead Shiraz.

2 september er því leitað til lögmannsstofu sem sendir formlegt bréf til ÁTVR þar sem bent er á að engin ný gögn hafi komið fram í málinu síðan ráðuneytið úrskurðaði að ÁTVR bæri að taka við umsókn um reynslusölu og þess krafist að taka vínið í reynslusölu. Við því var ekki orðið.

19 september er seinni kæran því send inn til Fjármálaráðuneytisins og enn og aftur eftir margítrekaðar tilraunir til þess að ná sambandi við lögfræðing ráðuneytisins kemur loks lokaniðurstaða inn um lúguna í byrjun árs 2012. Á einhvern óskiljanlegan hátt tekst kærunefnd ráðuneytisins að vera sammála ÁTVR og hafna reynslusölu á víninu í verslunum ÁTVR. Þetta er þveröfug niðurstaða við fyrra svari ráðuneytisins með nákvæmlega sömu gögn í höndunum.

Fyrirspurn ROKK slf um reynslusölu á Motörhead Shiraz í ÁTVR hefur því tekið um það bil 10 mánuði og eru helstu ástæður höfnunar eftirfarandi:  “Nafn hljómsveitarinnar er vísun í notendur hins ólöglega fíkniefnis amfetamíns ásamt því að textar við lög hljómsveitarinnar fjalli iðulega um stríð, misnotkun valds, óábyrgt kynlíf og misnotkun vímuefna “. Þessar upplýsingar fékk ÁTVR af hinum opna upplýsingavef Wikipedia en á honum getur hver sem er sett inn þær upplýsingar sem honum sýnist og er hann því varla marktækur í kærumálum sem þessum.
Einnig segir í úrskurði að umrætt rauðvín sé ekki framleitt af Motörhead heldur af Broken Back Winery í Ástralíu og þar af leiðandi má ekki standa Motörhead framann á flöskunni. Semsagt meðlimir hljómsveitarinnar eru ekki sveittir að tína ber og tappa á flöskur og þess vegna má nafn hljómsveitarinnar ekki prýða miðann á flöskunni.

Rétt er að það komi einnig fram að lönd sem við miðum okkur oft við í regluverki eru að selja Motörhead Shiraz. Í Svíþjóð seldist fyrsta upplag upp á nokkrum dögum, í Finnlandi seldist það einnig upp á nokkrum dögum. Í Noregi, Bretlandi og Þýskalandi hefur salan einnig farið vel af stað. Einnig er komið á markaðinn Motörhead Vodka og selst hann einnig mjög vel erlendis.

Af þessu má einfaldlega sjá að allt vín sem ber merki tónlistarmanns eða hljómsveitar, sem kemur ekki beint sjálfur að gerð vínsins, hvernig sem það er svo metið, verður aldrei selt í ÁTVR með núgildandi reglum.
ROKK slf er komið í samband við birgja sem eru með vín merktum Rolling Stones, Police, AC/DC, Pink Floyd og í  lauslegum viðræðum við birgja sem er með nokkrar Elvis Presley flöskur til sölu. Ekkert af þessu víni verður nokkurn tímann til sölu í ÁTVR.

Síðan vaknar óneitanlega spurningin hvort stóru fyrirtækin lúta öðrum reglum en litlu fyrirtækin ?
Heilagur Papi er gott dæmi en þar setti umboðsmaður Alþingis ofaní við ÁTVR og Fjármálaráðuneytið eftir að Papinn fékk ekki náð hjá þessum stofnunum. Ómögulegt er að vita um allar þær tegundir sem særðu blygðunarkennd “nefndarmanna” og var hafnað.

Þá er brugghúsið Borg sem er í eigu Ölgerðarinnar að setja á markað nýjan bjór sem ber nafnið Surtur. Rétt er að það komi skýrt fram að ROKK slf hefur ekkert á móti Ölgerðinni en ef nota ætti sömu rök á stór og lítil fyrirtæki sem eru að setja nýjar vörur á markað þá kæmist þessi vara líklega ekki í sölu í ÁTVR. Surtur er ekkert minna en heimsendaspá með tilheyrandi morðum og blóðsúthellingum og ekki þykir líklegt að Surtur sjálfur komi mikið að framleiðslu bjórsins. Þessi bjór fór í sölu í ÁTVR á bóndadaginn og selst vonandi vel.

Fleiri tegundir sem ÁTVR selur sem hljóta að falla undir sömu rök og varð til þess að Motörhead Shiraz var synjað eru meðal annars Captain Morgan (kemur hann að gerð rommsins?), Dooley´s Toffee (skírskotun í nammi), Hobgoblin bjór, Fjallagrasaseyði (inniheldur gildishlaðnar upplýsingar) og Hoegarden Verbuten Vrucht þar sem miðinn inniheldur nekt, sem er náttúrulega tabú  á Íslandi og má helst hvergi sjást.
ROKK slf biður innflytjendur þessara vína fyrirfram afsökunar á þessari upptalningu og vonar að hún geri ekkert annað en auka söluna hjá þeim. Hún er eingöngu til að sýna fram á mismunun ÁTVR á birgjum sínum.
Væri ekki bara einfaldast að láta markaðinn ráða því hvað er selt í ÁTVR og hvað ekki ? Ef fólki líkar ekki innihaldið eða umbúðirnar sem það er í þá er það einfaldlega ekki keypt og fellur því um sjálft sig. Hversu langt á forræðishyggjan að ganga í okkar annars frábæra landi ? Einhver hefði haldið að það væri alveg nóg að skattleggja áfengi til tunglsins og til baka svo ekki bætist við ótrúlegar siðareglur sem gilda einungis fyrir suma en ekki alla til að fara eftir.
Þess má að lokum geta að umboðsmaður Alþingis er kominn með þetta mál inná borð hjá sér.
Á hverjum degi flytja fimm manns frá Íslandi til þess að hefja nýtt líf í öðru landi og lái þeim hver sem vill.

Fyrir hönd ROKK slf
Hjörleifur Árnason