sunnudagur, 16. mars 2014

Aðeins meira um hundaskít...............


Á rölti um hverfið mitt er orðið æ erfiðara að stíga niður sökum mikils magns af hundaskít.
Þetta er klassískt umræðuefni og kemur alltaf reglulega upp en hvað er hægt að gera, hver er lausnin ?
Hundaeigendur tala gjarnan um örfáa svarta sauði og hinir „hreinlegu“ eigi ekki að líða fyrir þá og því sé í raun ekkert hægt að gera. Hinsvegar má alveg benda á það að oft eru það bara örfáir svartir sauðir sem eyðileggja allt fyrir hinum. Tökum dæmi. Langflest mótorkross fólk keyrir alltaf á merktum slóðum og passar vel uppá að skilja ekki eftir sár í náttúrunni þegar það keyrir um. Örfáir svartir sauðir hafa samt komið því til leiðar að búið að að loka fyrir aðgang að mörgum svæðum og menn hiklaust sektaðir ef þeir nást við að spóla upp sandi uppá öræfum. Nú nýlega komst í hámæli að örfáir fullir vitlausir íslendingar gangi örna sinna inandyra í skálum uppá hálendinu. Það er því nú í umræðunni að læsa skálunum útaf því. Svona mætti lengi halda áfram, aðeins örfáir svartir sauðir sem eyðileggja fyrir hinum. Af hverju ættu hundaeigendur að fá öðruvísi meðferð ?

Samkvæmt 9 grein, í samþykktum um hundahald á Álftanesi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, frá árinu 2000 kemur skírt fram að hundur eigi ávalt að vera í taumi þar sem umferð gangandi fólks er og  ávalt skuli þrífa upp saur eftir hann. Í 16. Grein stendur síðan að brot á þessu varði sektum. Þar sem það stendur svart á hvítu að ef hundaeigendur þrífa ekki upp skítinn eftir hundana sína verði þeir sektaðir stendur eftir spurningin hver á að fylgjast með þessu ? Er það ég eða þú eða er til eitthvað eftirlit ?  Þegar hringt er í hundaeftirlitsmann í Hafnarfirði og honum tjáð að það sé laus geltandi hundur í garðinum er svarið á þá leið að ef viðkomandi hundur verði handsamaður komi hann og fjarlægi hundinn. Hvaða heilvita maður veður útí garð og reynir að handsama bláókunnugan geltandi hund ? Hundaeftirlitið ætlar ekki að leggja sig í hættu við það svo mikið er víst.
         



Allir hundaeigendur verða að  skrá hundana sína og borga skráningar og (takið eftir) eftirlitsgjald. Það er samt alveg ljóst að það er hvorki eftirlit með lausagöngu hunda né magni hundaskíts á og meðfram göngustígum í Hafnarfirði og því virðist það vera algerlega á ábyrgð hins óbreytta borgara að sanna það að þessi eða hinn hundaeigandinn hafi ekki þrifið upp eftir hundinn sinn. Það er augljóst mál að ekki margir eru tilbúnir í þá baráttu.
Það sem hefur vakið hjá mér mesta furðu eru litlir pokar meðfram göngustígum, fullir af hundaskít. Ég var mikið búinn að hugsa hvað lægi á bakvið það að hafa fyrir því að setja skítinn i poka og henda honum síðan. Svo var mér sagt af hverju þetta væri. Hinir fáu svörtu sauðir setja bara skítinn í poka þegar einhver er að horfa á, um leið og þeir halda að þeir séu úr augsýn er pokanum hent. Ég hef hitt menn sem hafa sjálfir séð þetta gerast.


Ekki er hægt að segja að það vanti hugmyndaauðgi þegar kemur að því að hirða upp hundaskít, hinar ýmsu útfærslur má sjá t.d. HÉR en það besta sem ég hef séð er án efa „veskið“ sem sjá má HÉR það er því bæði hægt að vera cool og samt hirða upp eftir hundinn sinn. Svo mætti gjarnan auka magnið af ruslatunnum og hætta að eltast við eitthvað sem lítur vel út og brennur líka vel og botninn dettur reglulega úr. Það vantar sterkar og góðar ruslatunnur og mikið af þeim.

Því miður held ég að ekkert af þessu eigi eftir að lagast fyrr en hið svokallaða eftirlitsgjald fer í alvörunni í eftirlit, líkt og í bænum Brunette á Spáni, og hinir lötu hundaeigendur verði í alvöru sektaðir eða eftir ítrekuð brot sviptir hundaleyfinu og bannað að eignast hund í einhvern  X tíma. Því miður er það nú einu sinni þannig að það er til lítils að setja boð og bönn ef enginn er til að fylgja þeim eftir. Það mætti jafnvel virkja FANGA til sinna þessu eftirliti og í framtíðinni kjósa með ÞJÓHNAPPINUM um hvort hundahald í þéttbýli sé æskilegt eða ekki.


Það eru til lausnir á öllu, það þarf bara smá vilja og kjark.

Ps. Allar myndirnar eru teknar á einum og sama deginum í stuttum göngutúr um hverfið.