laugardagur, 26. apríl 2014

Ratleikhúsið

Hugmynd fyrir Leikfélag Akureyrar.

LA sem er bráðum að verða 100 ára er komið í þá aðstöðu að á næsta leikári verða engin leikverk sett á svið. Þetta eru náttúrulega ekki góðar fréttir þar sem það er jafn rótgróið í þorp og bæi á Íslandi að vera með leikfélag eins og sundlaug eða sjoppu. Hvað er til ráða ? Kannski Ratleikhús geti hjálpað ?
Veistu ekki hvað ratleikhús er ? Ég skal útskýra.
Eins og í hverjum öðrum ratleik þá er markmiðið að finna tákn eða hluti með aðstoð korts en í þessum leik eru vísbendingarnar leikarar.
Leikurinn byrjar þannig að þú kaupir spjald sem þú getur nælt í barminn og færð með kort þar sem kemur fram á hvaða stöðum eru vísbendingar. Þessir staðir geta verið t.d. Bláa kannan, Eymundson, Jón Sprettur, Dressman Glerártorgi eða bara hvað sem er.
Leikarar á Akureyri þurfa sjálfsagt einhversstaðar að vinna ef þeir eru ekki að leika og væri hægt að einblína á þá staði þar sem þeir eru. Þegar þú svo mætir á staðinn þarft þú að finna „tengiliðinn“ og ná uppúr honum vísbendingunni. Tengiliðurinn (leikarinn) sér að þú ert með barmmerkið og setur sig þá í hlutverk og spilar með í leiknum. Þannig ferð þú á milli staða og veiðir upplýsingar uppúr öllum „tengiliðunum“ og í leiðinni fá leikararnir tækifæri að viðhalda leikhæfileikunum. Jafnvel væri hægt að búa til einhverskonar sögu sem leiðir þig áfram og hver og einn leikari er með hlutverk í sögunni. Sagan er á kortinu sem þú færð með barmerkinu og þú átt að fylla í eyðurnar. Barmerkin væri hægt að fá í tveim litum og væri t.d. blái liturinn fyrir íslendinga og rauði fyrir enskumælandi. Hagnaðurinn sem kæmi af sölu barmerkjanna myndi svo renna til LA. Þeir sem þyrftu að koma að þessu væru LA, Akureyrarbær og að sjálfsögðu eigendur fyrirtæjanna. Eins og í öllum góðum leikjum væru svo frábær verðlaun í boði fyrir þá sem klára leikinn.


Þá veistu hvað ratleikhús er.


sunnudagur, 16. mars 2014

Aðeins meira um hundaskít...............


Á rölti um hverfið mitt er orðið æ erfiðara að stíga niður sökum mikils magns af hundaskít.
Þetta er klassískt umræðuefni og kemur alltaf reglulega upp en hvað er hægt að gera, hver er lausnin ?
Hundaeigendur tala gjarnan um örfáa svarta sauði og hinir „hreinlegu“ eigi ekki að líða fyrir þá og því sé í raun ekkert hægt að gera. Hinsvegar má alveg benda á það að oft eru það bara örfáir svartir sauðir sem eyðileggja allt fyrir hinum. Tökum dæmi. Langflest mótorkross fólk keyrir alltaf á merktum slóðum og passar vel uppá að skilja ekki eftir sár í náttúrunni þegar það keyrir um. Örfáir svartir sauðir hafa samt komið því til leiðar að búið að að loka fyrir aðgang að mörgum svæðum og menn hiklaust sektaðir ef þeir nást við að spóla upp sandi uppá öræfum. Nú nýlega komst í hámæli að örfáir fullir vitlausir íslendingar gangi örna sinna inandyra í skálum uppá hálendinu. Það er því nú í umræðunni að læsa skálunum útaf því. Svona mætti lengi halda áfram, aðeins örfáir svartir sauðir sem eyðileggja fyrir hinum. Af hverju ættu hundaeigendur að fá öðruvísi meðferð ?

Samkvæmt 9 grein, í samþykktum um hundahald á Álftanesi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, frá árinu 2000 kemur skírt fram að hundur eigi ávalt að vera í taumi þar sem umferð gangandi fólks er og  ávalt skuli þrífa upp saur eftir hann. Í 16. Grein stendur síðan að brot á þessu varði sektum. Þar sem það stendur svart á hvítu að ef hundaeigendur þrífa ekki upp skítinn eftir hundana sína verði þeir sektaðir stendur eftir spurningin hver á að fylgjast með þessu ? Er það ég eða þú eða er til eitthvað eftirlit ?  Þegar hringt er í hundaeftirlitsmann í Hafnarfirði og honum tjáð að það sé laus geltandi hundur í garðinum er svarið á þá leið að ef viðkomandi hundur verði handsamaður komi hann og fjarlægi hundinn. Hvaða heilvita maður veður útí garð og reynir að handsama bláókunnugan geltandi hund ? Hundaeftirlitið ætlar ekki að leggja sig í hættu við það svo mikið er víst.
         



Allir hundaeigendur verða að  skrá hundana sína og borga skráningar og (takið eftir) eftirlitsgjald. Það er samt alveg ljóst að það er hvorki eftirlit með lausagöngu hunda né magni hundaskíts á og meðfram göngustígum í Hafnarfirði og því virðist það vera algerlega á ábyrgð hins óbreytta borgara að sanna það að þessi eða hinn hundaeigandinn hafi ekki þrifið upp eftir hundinn sinn. Það er augljóst mál að ekki margir eru tilbúnir í þá baráttu.
Það sem hefur vakið hjá mér mesta furðu eru litlir pokar meðfram göngustígum, fullir af hundaskít. Ég var mikið búinn að hugsa hvað lægi á bakvið það að hafa fyrir því að setja skítinn i poka og henda honum síðan. Svo var mér sagt af hverju þetta væri. Hinir fáu svörtu sauðir setja bara skítinn í poka þegar einhver er að horfa á, um leið og þeir halda að þeir séu úr augsýn er pokanum hent. Ég hef hitt menn sem hafa sjálfir séð þetta gerast.


Ekki er hægt að segja að það vanti hugmyndaauðgi þegar kemur að því að hirða upp hundaskít, hinar ýmsu útfærslur má sjá t.d. HÉR en það besta sem ég hef séð er án efa „veskið“ sem sjá má HÉR það er því bæði hægt að vera cool og samt hirða upp eftir hundinn sinn. Svo mætti gjarnan auka magnið af ruslatunnum og hætta að eltast við eitthvað sem lítur vel út og brennur líka vel og botninn dettur reglulega úr. Það vantar sterkar og góðar ruslatunnur og mikið af þeim.

Því miður held ég að ekkert af þessu eigi eftir að lagast fyrr en hið svokallaða eftirlitsgjald fer í alvörunni í eftirlit, líkt og í bænum Brunette á Spáni, og hinir lötu hundaeigendur verði í alvöru sektaðir eða eftir ítrekuð brot sviptir hundaleyfinu og bannað að eignast hund í einhvern  X tíma. Því miður er það nú einu sinni þannig að það er til lítils að setja boð og bönn ef enginn er til að fylgja þeim eftir. Það mætti jafnvel virkja FANGA til sinna þessu eftirliti og í framtíðinni kjósa með ÞJÓHNAPPINUM um hvort hundahald í þéttbýli sé æskilegt eða ekki.


Það eru til lausnir á öllu, það þarf bara smá vilja og kjark.

Ps. Allar myndirnar eru teknar á einum og sama deginum í stuttum göngutúr um hverfið.

miðvikudagur, 26. febrúar 2014

ÞjóHnappurinn

Hvað er búið að eyða mörgum blaðsíðum í dagblöðum og klukkutímum í sjónvarpi um það hvort eigi að kjósa um hitt eða þetta ? Mörg mál hafa verið í umræðunni síðastliðin ár og ber þar helst að nefna lækkun veiðigjalds og Icesave en eitt frægasta mál ( og langdregnasta ) seinni ára er án efa aðildaviðræðurnar við ESB. Á að kjósa um aðild ? Á að kjósa um áframhaldandi viðræður ? Á að kjósa um að fá að sjá í „pakkann“ ? Til að gera málin oft á tíðum enn flóknari eru pólítíkusar ekki einu sinni alltaf sammála því sem þeir vildu sjálfir kannski ári áður. Endalaus umræðan heldur áfram og fyllir dagblöð, útvarp og sjónvarp. Á þetta eða hitt málið að fara í þjóðaratkvæðisgreiðslu eða ekki ?
Kjósa eða ekki kjósa, það er spurningin. Svarið, hinsvegar, finnst mér vera algjörlega augljóst. Það eina sem þarf að ákveða er prósentan. Leyfið mér að útskýra.
í Sviss er notast við svokallað „beint lýðræði“. Það hefur verið þar við lýði í mörg herrans ár og virkar bara nokkuð vel að sögn heimamanna. Það virkar þannig að þegar 100.000 eru mótfallnir máli sem er á leið í gegnum þingið geta þeir krafist þess að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Helsti gallinn við þetta ferli er að þegar það var sett á þá var miðað við 100.000 manns, sem í dag þykir ekki ýkja mikið í Swiss. Í dag myndu þeir líklega notast við ákveðið prósentuhlutfall af ríkisborgurum. Þeir einfaldlega rita „NEI“ á miða og setja hann í sérstakt kosningabox. Þegar svo „NEI“ miðarnir eru orðnir 100.000 Þá ber þeim sem eru við völd að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Einfalt ekki satt ?
Á vef Alþingis eru daglegar færslur um þau mál sem eru í umræðunni í það og það skiptið. Ef mikilvæg málefni eru á dagskrá eru allar líkur á því að þau mál verði komin á netmiðla og í umræðuna mjög fljótlega. Mín hugmynd er sú að inná vef Alþingis sé hnappur, sem mætti kalla þjóhnapp, sem virkar þannig að ef ýtt er á hnappinn, rafrænt, skráist eitt atkvæði. Það mætti notast við IP tölur, kennitölur, lykilorð úr heimabanka eða hvaðeina til að tryggja að einn maður eigi eitt atkvæði. Þegar síðan t.d. 10% kosningabærra mann, cirka 24.500 manns, hafa kosið, ber stjórnvöldum að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sem mætti síðan hæglega fara fram á netinu líka.
Auðvitað verða deilur um hvaða prósentutölu er best að miða við en með tíð og tíma má slípa það til. Líklega þyrfti hún að vera aðeins hærri en 10%.
Samkvæmt rannsókn frá Hagstofu Íslands síðan 2012 þá eru tölvur á 96% heimila landsmanna, sem er með því mesta á öllu EES svæðinu. Því má til sanns vegar færa að það er auðveldara fyrir landsmenn að kjósa á netinu en á gamla mátan, með því að mæta á staðinn og krota á miða.
Með þessu móti geta þeir sem dunda sér við það að öskra og niðurlægja hvor aðra á hinu háa Alþingi einbeitt sér að því sem þeir voru kosnir til. Að vinna að því sem þeir lofuðu í kosningabaráttunni án stöðugra afskipta frá almenningi um það hvort þeim finnist ekki að þjóðin eigi að kjósa um málið. Þjóhnappurinn sér alveg um að svara þeirri spurningu. Ef 10% markinu er ekki náð á meðan málið fer í gegnum Alþingi þarf einfaldlega ekkert að ræða það frekar.
Fjölmargar kosningar fara nú þegar fram á netinu, sem dæmi má nefna að tæplega 70.000 manns skrifuðu undir vilja til þess að hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni á www.lending.is og rúmlega 33.000 manns hafa skrifað undir vilja til að klára samningaviðræður við ESB á www.tjod.is . Þessar kosningar þykja góðar og gildar og er því augljóst mál að það eina sem þarf að ræða er hversu há prósentan á að vera fyrir Þjóhnappinn.
Nú vantar bara stjórnmálaflokk sem þorir að leyfa þjóðinni stundum að ráða.
Næst þegar þú lest langan pistil um að þetta eða hitt málið eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu gætir þú hugsanlega verið að gera eitthvað miklu gáfulegra ef þjóhnappurinn væri við lýði, t.d. fá þér góðan bjór.

Hjörleifur Árnason
Áhugamaður um betra samfélag